Hagvöxtur síðustu sex mánaða mældist 5,2%, atvinnuleysi minnkar hratt, verðbólga eykst og sömuleiðis innflutningur erlends vinnuafls. Þá spáir Vinnumálastofnun enn frekari samdrætti í atvinnuleysi á næsta ári og að það muni nema 2,7% á ársgrundvelli, að því er fram kemur í Fréttablaðinu .

Þórólfur Matthíasson , prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að margt bendi til þenslumyndunar. „Það eru alls konar merki sem benda til þess að slakinn í efnahagslífinu sé búinn og farið er að ganga á hann,“ segir Þórólfur. Segir hann að stjórnvöld verði að beita sér í meira mæli samhliða Seðlabankanum við að passa upp á að hér skapist ekki of mikil þensla.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir aftur á móti að ríkissjóður standi ekki í þensluhvetjandi aðgerðum. Bendir hann á að höfrungahlaupið á vinnumarkaði sé ekki til bóta. „Launþegahreyfingin er týndi hlekkurinn á vinnumarkaði. Ríkissjóður er ekki að vinna að mannaflsfrekum framkvæmdum í dag,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.