*

föstudagur, 23. október 2020
Innlent 22. september 2015 16:59

Bjarni: Sæstrengurinn er áhugaverður kostur

Fjármálaráðherra kveðst ekki mótfallinn hugmynd um sæstreng, en hana þurfi aftur á móti að skoða ofan í kjölinn.

Jóhannes Stefánsson
Haraldur Guðjónsson

„Þetta er áhugaverð hugmynd, en það verður að vera alveg skýrt að verkefnið sé bæði skynsamlegt út frá efnahagslegum og félagslegum sjónarhóli." Þetta kom fram í erindi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundi um framtíð mögulegs sæstrengs á milli Íslands og Bretlands. Fundurinn var á vegum Bresk-íslenska viðskiptaráðsins og var haldinn á Hilton í dag.

Í máli Bjarna kom fram að hugmynd um sæstreng á milli þjóðanna hefði verið á floti í um 60 ár. Í upphafi hafi hún þótt draumkennd vegna þess hversu dýr og tæknilega flókin hún væri, en með tækniframförum og aukinni velmegun væri þessi draumsýn nær veruleikanum en áður. Frá því að hugmyndin hefði fyrst komið fram hefðu orkuinnviðir Íslands þróast verulega, en einnig hefði „þörf heimsins fyrir orku hefði vaxið stöðugt auk þess sem það hefur orðið mikil vitundarvakning um hvaðan orkan kemur," sagði Bjarni.

Að ýmsu að huga áður en ákvörðun er tekin

Bjarni sagði að til þess að sæstrengur kæmi til greina væru einkum fjögur atriði sem ekki mætti líta framhjá. „Í fyrsta lagi þarf að tryggja að verkefnið sé í raun efnahagslega forsvaranlegt. Til lengri tíma litið þarf að ganga úr skugga um að ávinningur af sæstreng sé meiri en áhættan af honum," sagði Bjarni.

Í öðru lagi þyrfti að ganga úr skugga um að almenningur hefði aðgang að orku á viðráðanlegu verði. Í þriðja lagi þurfi að huga að áhrifa sæstrengs á samkeppnishæfni Íslands. Í fjórða lagi þyrfti að gæta vel að umhverfisþáttum í tengslum við framkvæmdina. „Umhverfisáhrif af sæstrengnum sjálfum yrðu kannski ekki ýkja mikil á Íslandi, en það þyrfti að meta hversu mikla orku þyrfti að beisla til viðbótar." Bjarni nefndi aukið mikilvægi ósnortinnar náttúru í tengslum við ferðamannaiðnað, en Ísland ætti mikið undir aðdráttarafli hennar.

Setji aukinn kraft í samskipti

Fjármálaráðherra nefndi í ræðu sinni að mörgum þætti sem sæstrengsmálinu hefði undið fram „á hraða snigilsins," og að margir vildu sjá málinu vinda hraðar fram. Hann sagðist skilja það sjónarmið, en aftur á móti væri í mörg horn að líta og íslensk stjórnvöld áskildu sér rétt til að skoða málið til hlítar.

Engu að síður sagði Bjarni að nú væri réttur tími til að færa aukinn kraft í samskipti á milli íslenskra og breskra stjórnvalda um málið, með það fyrir augum að koma því á aukna hreyfingu.