Stjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem kynntur var til sögunnar á Kópavogsfundi snýst, að mati Bjarna Benediktssonar verðandi forsætisráðherra, um stöðugleika til framtíðar.

Segist hann að flokkarnir vilji byggja upp áframhaldandi jafnvægi í efnahagsmálum á sama tíma og innviðauppbygging sé kjarnaatriði í sáttmálanum.

Það eigi við um samgöngumál, heilbrigðismál, menntamál og önnur ný svið.

Tæki ellefu og hálfa mínútu

Óttarr Proppé sagði að ekki yrði á fundinum allur stjórnarsáttmálinn lesinn upp. „Það tæki ellefu og hálfa mínútu eða lengur,“ sagði Óttarr.

Bjarni Benediktsson sagðist á fundinum vænta að stjórnarsáttmálinn sem nú sé kynntur til sögunnar muni bjóða upp á „bjarta framtíð,“ á sama tíma og hann horfði til Óttars og kímdi.

Bjarni segir það áskorun að taka við sterkri stöðu í fjármálum og ekki sjálfgefið að hægt sé að viðhalda henni. Nefnir hann í því samhengi tilkomu stöðugleikasjóðs.

Dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga

Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega nefnt að styrkja eigi heilbrigðiskerfið, en á sama tíma á einnig að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.

Jafnframt verður gert átak í geðheilbrigðismálum og byggingu meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut verði lokið árið 2023.

Ná þurfi betri virkni úr heilbrigðiskerfinu

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sem líklegt er að verði ráðherra heilbrigðismála segir að aukið verði til lengri tíma í málaflokkinn en leggur jafnframt áherslu á að við náum betri virkni út úr kerfinu.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir markmið ríkisstjórnarinnar vera, líkt og Viðreisn hafi boðað, að standa að kerfisbreytingum án kollsteypa.

Vaxtastefna sambærileg við útlönd

Segja þeir að því að ríkisstjórnin horfi til framtíðar, og stefnt verði að því að hér verði vaxtastefna sem sé sambærileg við útlönd ásamt því að stefnt verði að sátt í viðamiklum greinum eins og landbúnaði og sjávarútvegi.

Það er að sátt verði milli neytenda og framleiðenda, sjómanna, útgerðar og almennings.

Bókhald ríkisstjórnar

Benedikt segir að lagt verði áhersla á jafnrétti kynjanna þar sem launamisrétti kynjanna sé mikill blettur á íslensku þjóðfélagi. Segir hann upptöku jafnlaunavottunar verða eitt fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar.

Jafnframt nefndi hann upptöku nýrra vinnubragða byggðum á gegnsæji, þar á meðal að bókhald ríkisins verði opnað meira en verið hefur. Auk þess að reynt verði að hafa gott samstarf við minnihlutann.

Styrkur að hafa nauman meirihluta

Óttarr segir myndun ríkisstjórnarinnar hafa verið talsvert langa fæðingu. „Erum að ná saman í annarri ef ekki þriðju tilraun þessir flokkar,“ segir Óttarr.

„Við erum að ljúka löngu tímabili þar sem margt hefur verið skoðað og rætt. Við þurfum starfhæfa ríkisstjórn í landinu. Hér er búið að vinna mjög vel í haginn fyrir farsæla, frjálslynda og framsýna ríkisstjórn, em byggir á stöðugleika, en líka meiri framsýni og fjölbreytni í íslensku samfélagi.“

Segir Óttarr það ekki veikleika að ríkisstjórnin byggi á tæpum meirihluta heldur þvert á móti að það geti verið henni styrkur.

Sérstaklega tekið á málefnum útlendinga

Nefnir Óttarr nokkur önnur áherslumál, eins og umhverfismálin sérstaklega, þá loftslagsmálin. Einnig að heilmikil áhersla verði á fjölskyldumálin og mannréttindamál.

„Tekið sérstaklega myndarlega á málefnum útlendinga, kvótaflóttamanna og gera betur til að hjálpa innflytjendum að verða virkir í íslensku samfélagi.“