Bjarni Benediktsson, starfandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi fjölmiðlana í umræðum forystumanna flokkanna í Silfri Ríkisútvarpsins í dag eftir að talningu atkvæða úr kosningunum í gær lauk.

Þar kom í ljós að stjórnarandstöðuflokkarnir, Vinstri græn, Samfylkingin, Píratar og Framsókn bættu við sig einu þingsæti og gætu því myndað jafnstóran meirihluta og fyrri ríkisstjórn var með. Þónokkrar sviptingar voru á þingmannalistum flokkanna eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

Í kjölfar umræðu um leiðinlega áferð á kosningabaráttunni, sem endaði með snörpum orðaskiptum milli formanna Miðflokksins og Samfylkingar eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag, gagnrýndi hann hefðbundnu fjölmiðlana á sama tíma og hann tók skýra afstöðu fyrir málfrelsinu.

Alltaf verið harka í stjórnmálum

,,Það hefur alltaf fylgt stjórnmálunum ofboðslega mikil harka, menn ganga of langt og þarf ekki annað en að lesa gömlu flokksblöðin til að sjá hvernig orðræðan var á sínum tíma.

Þá voru líka mótmælafundir, þá var hnippt í þingmenn þegar þeir voru á gangi fyrir utan þinghúsið," sagði Bjarni auk þess að setja ofan í við þá sem virtust vera að tala gegn frjálsri orðræðu í samfélaginu í gagnrýni sinni, jafnvel þó hann segði komu netmiðlana hafa gert árásir á fólk auðveldari.

Opið lýðræðissamfélag leyfir ekki að slökkt sé á málfrelsi sumra

,,Það er ekki hægt að biðja um í opnu lýðræðissamfélagi að það verði slökkt á þessum hátalara, því hann verður alltaf þarna og hefur alltaf verið þarna.

Það er auðveldara með þessum nýju miðlum, en ég segi, ég hef orðið fyrir vonbrigðum með fjölmiðlanna líka, ég vil aðeins koma boltunum líka til þeirra svo þetta sitji ekki bara hérna í fanginu á stjórnmálamönnunum, sem hafa verið svo vondir hver við annan."

Sagði Bjarni í þessu samhengi þjóðina hafa verið að fara í gegnum nokkuð erfiðan tíma undanfarið þegar kæmi að orðræðunni í samfélaginu. Það hefði þó gilt oft áður í sögunni en hann sagði þó hina hefðbundnu fjölmiðla einnig verða að taka á sig hluta af þeirri ábyrgð.

Uppþot og hlaupið á milli með míkrófóna

,,Þeir elska skandala, þeir elska eitthvað svona rosalegt uppþot, að hlaupa á milli með míkrófóna," sagði Bjarni sem sagði að honum hefði fundist sumir fjölmiðlar hafa tapað sér í spenningi yfir að finna næsta skandal til að fjalla um í aðdraganda þessara kosninga.

,,Guð minn góður hvað maður gæti verið fyrir löngu síðan hallað sér aftur í hægindastólnum og farið að gera eitthvað allt annað og vera laus við allt níðið og bullið og vitleysuna."

Æðri tilgangur héldi sér í stjórnmálum

Bjarni sagði ástæðuna fyrir því að hann gerði það ekki væri sá æðri tilgangur sem hann fyndi í því að gera gagn fyrir land og þjóð jafnvel þó það kostaði að sitja í ríkisstjórn og hefði gert það frá hruni.

,,Ég held það hræði marga," sagði Bjarni sem sagði flokkinn hafa þurft að verjast einmitt vegna þess að hann hefði setið í ríkisstjórn síðan 2013. ,,Það hefur ekkert gefist neitt sérstaklega vel að vera í ríkisstjórn ef þú ert bara að hugsa um að auka fylgi þitt."

Ávísun á óvinsældir að fara í ríkisstjórn en gert landi og þjóð til gagns

Bjarni sagði að þó stjórnarmyndunarviðræðurnar gætu orðið flóknar en þar sagði hann persónuleg tengsl milli fólks auðvitað skipta miklu máli því það ráði því hvort hægt sé að halda saman starfhæfri ríkisstjórn.

,,Hvað eru menn tilbúnir að leggja á sig, þrátt fyrir öll óþægindin, til þess að vinna til góðs fyrir land og þjóð," sagði Bjarni sem sagði gott að finna að fleiri á stjórnmálasviðinu hugsuðu á þeim nótum, og gætu leitt leiðindin hjá sér.

,,Á endanum er þetta ekkert flóknara en það að við þurfum að sitja yfir málefnunum. Getum við boðið okkar stuðningsmönnum, upp á þessa stjórn, um þessi mál, á næstu árum, á grundvelli málefnanna." Aðspurður hvort honum þætti eðlilegt að hann fengi stjórnarmyndunarumboðið fyrstur játaði hann því.

,,Við erum sá flokkur sem hefur sigrað öll kjördæmi og erum með langstærsta þingmeirihlutann. Í grunninn ef maður ætlar ekki að mynda fimm flokka ríkisstjórn, eða minnihlutastjórn, þá hljótum við að vera þátttakendur í næstu ríkisstjórn."