Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í opnu bréfi til Bankasýslu ríkisins að „umræða undanfarinna vikna vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun sé til þess fallin að skaða bankann". Því sé nauðsynlegt áður en lengra er haldið í söluferli á 28,2% hlut ríkisins í bankanum að fá allt er varðaði söluna á Borgun upp á borðið. Afgreiða þurfi málið með þeim hætti að traust til bankans og stjórnenda hans verði tryggt.

„Samkvæmt upplýsingum og gögnum sem vísað hefur verið til í þeirri umræðu má ætla að það verð sem bankinn fékk fyrir eignarhlut sinn hafi verið mun lægra en eðlilegt getur talist. Jafnframt hefur verið gagnrýnt að við sölumeðferð bankans á hlutnum hafi ekki verið gætt að sjónarmiðum um gagnsæi og jafnræði," skrifar Bjarni í bréfinu sem birt var á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

„Er sú staða sem upp er komin alvarleg, en Landsbankinn er í senn stærsta fjármálafyrirtæki landsins og verðmætasta félag íslenska ríkisins."

Hann bendir einnig á að aðkoma fjármála- og efnahagsráðherra að daglegum málefnum einstakra fjármálafyrirtækja í ríkiseigu sé verulega takmörkuð að lögum. Hins vegar sé það hans verk að setja félögunum eigendastefnu þar sem gerð er grein fyrir almennri stefnumörkun eiganda. Í samræmi við það hefur fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins verið sett sérstök eigendastefna sem gildir um öll þau félög sem Bankasýslan fer með eignarhlut í. Kjarni stefnunnar byggir á að umrædd fjármálafyrirtæki séu rekin með faglegum og gagnsæjum hætti þannig að almennt ríki traust á stjórn og starfsemi.