Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að til skoðunar sé að setja gömlu bönkunum frest varðandi það hve lengi þeir geta verið í slitameðferð og þrýsta á þá að breyta erlendum eignum sínum í krónueignir. Þetta segir Bjarni í samtali við Bloomberg fréttaveituna.

„Ég vil ekki vera með neinar yfirlýsingar,“ segir Bjarni þegar hann er spurður að því hvort þetta muni gerast á þessu ári. Það sé þó ekki útilokað. Bjarni tekur með þessu undir orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í samtali við Bloomberg í nóvember.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði þá að aldrei hefði verið litið á „slitaferlið sem varanlegt viðskiptalíkan“. Þá gagnrýndi hann hve langan tíma það hefði tekið að ljúka slitaferlinu.

Glitnir hefur kynnt Seðlabanka Íslands hugmyndir að frumvarpi til nauðasamninga en Seðlabankinn hefur ekki samþykkt þær.