Bjarni Benediktsson sækir stofnfund Innviðafjárfestingabanka Asíu í Peking yfir helgina, dagana 16 - 17 janúar.

Á fundinum verður bankinn formlega stofnsettur og helstu reglur um starfsemi bankans verða samþykktar. Þar að auki verður fyrsta stjórn hans kjörin.

Síðastliðinn mars ákvað ríkisstjórn Íslands að verða meðal stofnaðila að Innviðafjárfestingabankanum. Bankinn er fjölþjóðlegur þróunarbanki sem mun styðja við aðgerðir til að efla innviði í Asíu sem er sá hluti heimsins þar sem hagvöxtur er hvað mestur.

Hagvaxtarþróunin kallar á stóraukna fjárfestingu í asískum innviðum, til að auðvelda vöru- og þjónustuflæði innan og milli Asíu, sem og fjarlægari svæða - eins og Evrópu, Afríku og Mið-Austurlanda.

Heildarstofnfé bankans mun nema 100 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem um nemur 13.000 milljörðum íslenskra króna. Heildarskuldbinding Íslands varðandi stofnféð nemur um 17,6 miljónum Bandaríkjadala, eða um 2,3 milljörðum íslenskra króna.