Bjarni Jónasson hefur tekið við verkefnastjórn við Vaxtarsamning Eyjafjarðar. Um er að ræða stýringu og samræmingu á vinnu þeirra aðila sem koma að framkvæmd samningsins. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar (AFE) er framkvæmdaraðili samningsins og hefur Halldór Ragnar Gíslason sinnt hlutverki verkefnisstjóra samningsins undanfarið ár, en hann mun nú sinna sértækum verkefnum hjá AFE.

Í stað Halldórs hefur AFE fengið Bjarna til að verkstýra Vaxtarsamningi Eyjafjarðar. Bjarni hefur fjölbreytta reynslu sem stjórnandi og ráðgjafi, og hefur um skeið stýrt vinnu við einn af fjórum klösum Vaxtarsamningsins, heilsuklasa og mun hann halda þeirri vinnu áfram.