Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að Íslendingar þurfi að bregaðst við því neyðarástandi sem ríkir í málefnum flóttamanna frá Mið-Austurlöndum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Málefni flóttamanna frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum svæðum í Mið-Austurlöndum hafa verið sérstaklega mikið til umræðu undanfarna daga, en fjöldi fólks hefur deilt myndum af neyð flóttamanna á samfélagsmiðlum undanfarinn sólarhring. Margir hafa til að mynda deilt myndaalbúmi sem sýnir lík barna á fjöru í Líbýu. Vinstri græn hafa óskað eftir fundi um málið í allsherjar- og menntamálanefnd og Björt framtíð hefur ályktað um tafarlausa endurskoðun á aðgerðum varðandi móttöku flóttamanna.

Ekki undirbúin undir 1600 flóttamenn á ári

„Það er auðvitað algjör hryllingur að horfa upp á þessa hluti,“ sagði Bjarni í kvöldfréttum Stöðvar 2. Stjórnvöld þurfi og hljóti að skoða hvaða hluti Ísland getur gert til að koma flóttamönnum til aðstoðar. Hingað til hafi verið lögð áhersla á að vanda vel til verka og ganga ekki of hratt til verks. „Nú er komið upp neyðarástand og það þarf að hafa hraðar hendur við að skoða hvað við getum gert,“ sagði hann.

Í frétt Stöðvar 2 kom fram að Ísland ætti að taka á móti 1600 kvótaflóttamönnum á ári ef við ætluðum að standa jafnfætis Svíþjóð hvað varðar fjölda flóttamanna. Bjarni sagði ekki gott að segja til um hversu mörgum flóttamönnum rétt sé að taka á móti. Hann segir að Svíar hafi lent í vanda vegna þess mikla fjölda flóttamanna sem þeir hafa tekið á móti, og að Íslendingar þurfi að læra af þeirri reynslu.

Móttaka 1600 flóttamanna á ári sé óraunhæf. „Við erum ekki undirbúin undir að taka á móti þeim fjölda, en við verðum hins vegar að bregðast við því ástandi sem er uppi,“ sagði Bjarni.