Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir fylgi flokksins í nýlegum könnunum valda vonbrigðum. Hins vegar séu góðu fréttirnar þær að sú könnun sem birt var í dag eru ekki kosningaúrslit og Sjálfstæðisflokkurinn muni nota næstu viku í það að kynna stefnumál sín betur.

Þetta sagði Bjarni í leiðtogaumræðum í Ríkissjónvarpinu (RÚV) fyrir stundu en nú eru formenn eða talsmenn níu framboða í viðræðum í sérstökum þætti í aðdraganda kosninganna í vor.

Eins og áður hefur komið fram mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 22,4% fylgi í Þjóðarpúlsi Capacent sem birtur var í kvöld. Fylgi flokksins hefur lækkað hratt síðustu mánuði en flokkurinn mældist með um 25% fylgi fyrir síðustu áramót. Framsóknarflokkurinn mældist stærstur flokka með 28,3% fylgi.

Aðspurður um þessa stöðu sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að fylgið gæti breyst hratt en hann fangaði þó þessum góða árangri. Sigmundur Davíð sagði að stefnumál flokksins væru að ná í gegn og það útskýrði það fylgi sem flokkurinn er nú að mælast með.