Bjarni þór Bjarnason, lögmaður, hefur tekið við sem sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte og varð jafnframt einn af eigendum Deloitte.

Bjarni lauk laganámi við Háskóla Íslands árið 2008 og framhaldsnámi við University of Southern California árið 2009.

„Bjarni hefur starfað hjá LOGOS lögmannsþjónustu undanfarin átta ár og hefur meðal annars sérhæft sig á sviði félagaréttar, skattaréttar, samrunum og yfirtökum og fjármögnun fyrirtækja. Áður en Bjarni gekk til liðs við LOGOS starfaði hann hjá yfirskattanefnd og Íbúðalánasjóði.

Bjarni er giftur Helgu Elísu Þorkelsdóttur, iðnaðarverkfræðingi, og eiga þau saman þrjú börn,“ segir í tilkynningu frá Deloitte.

Þar er haft eftir Sigurði Páli Haukssyni, forstjóra Deloitte, að það sé mikill akkur fyrir skatta- og lögfræðisvið Deloitte að fá Bjarna til liðs við þau. „Bjarni kemur til okkar með reynslu frá stærstu lögmannsstofu landsins og þekkingu sem mun gera okkur kleift að þjónusta viðskiptavini okkar enn betur. Þá er ráðning Bjarna liður í því langtímamarkmiði okkar að efla skatta- og lögfræðisvið félagsins,“ segir Sigurður jafnframt.