Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að unnið hafi verið að því í um eitt og hálft ár að finna kaupanda að höfuðstöðvum OR, en fyrir skömmu var greint frá því að náðst hefði samkomulag við Straum fjárfestingabanka. Straumur býður 5,1 milljarð króna fyrir húseignirnar, fyrir hönd óstofnaðs félags, sem þýðir að söluhagnaður OR nemur um 600 milljónum.

„Við erum búin að vinna heilmikla frumkvæðisvinnu, það er að matreiða þessar eignir sem spennandi kaupvöru. Við teljum þetta hagstætt tilboð.“

Í samþykkt stjórnar OR segir að Orkuveitan muni leigja húseignirnar af kaupanda til 20 ára og hafi rétt til að kaupa þær aftur eftir tíu ár sem og við lok leigutímans. „Þetta var ekki endilega grundvallaratriði í samningaviðræðunum, en það er jákvætt að eiga þess kost að geta keypt eignirnar aftur. Ég legg svo áherslu á að hér er um kauprétt, en ekki kaupskyldu, að ræða.“

Pétur Einarsson, forstjóri Straums, segist ekki að svo stöddu geta gefið neitt upp um hið óstofnaða félag, sem áður var nefnt. „Ég get það ekki núna, en það kemur allt í ljós þegar endanlega er gengið frá kaupunum.“ Hann segir að gangi allt að óskum hvað varðar samþykki eigenda OR og fjármögnun kaupanna ætti að vera hægt að ganga endanlega frá þeim á fyrsta fjórðungi þessa árs. Ekki sé hægt að gefa nánari tímasetningu.

„Viðræðurnar hafa í raun ekki staðið mjög lengi, ætli þær hafi ekki hafist skömmu fyrir jól. Þetta hefur gengið hratt og vel og hafa stjórn og starfsmenn unnið þetta mjög vel og faglega,“ segir Pétur.