Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vill endurheimta sterka ríkisstjórn „sem að treystir sér til að standa með fólkinu í landinu í gegnum þykkt og þunnt“. Bjarni skýtur einnig föstum skotum á Bjarta framtíð vegna stjórnarslita flokksins. Forsætisráðherra vill ganga til kosninga sem fyrst — og leggur til að kosið verði í nóvember. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldin var í Valhöll vegna stjórnarslita Bjartrar framtíðar.

„Eftir samtöl við formenn flokkanna þá held ég að við gætum náð sátt um að kjósa í nóvember,“ sagði Bjarni Benediktsson í ræðu sinni. Þó telur Bjarni að hans mati hafi þessar aðstæður skapast „að óþörfu“.

Lætur Bjarta framtíð heyra það

Bjarni skýtur einnig mjög föstum skotum í átt að fyrrum samstarfsflokki sínum Bjartri framtíð og formanni hans, Óttari Proppé. Forsætisráðherra segir að þegar þarf að taka til, þegar eigi að breyta lögum, eigi menn að ganga beint til þess verks, en að menn eigi ekki að hlaupa til og setja allt stjórnarfar á Íslandi í uppnám. „Fyrir því er engin ástæða og ekkert tilefni,“ sagði Bjarni.

„Ég segi það alveg eins og er að það er alveg með ólíkindum hvað okkur Íslendingum virðist eiga erfitt með að ná festu í stjórnarfarið hér í landinu. Jafn vel og okkur gengur á nær öllum sviðum efnahagslífsins. Ég lít einnig á það sem mjög mikið veikleikamerki á þeim stjórnmálaöflum, sem bregðast við, með því að hlaupa til í framhaldi af sjónvarpsfréttum. Gefa sér ekki tíma til að setjast niður, eru komnir í rafrænar kosningar, áður en að maður hefur tekið eftir því að fundur hafi hafist og slíta síðan stjórnarsamstarfinu, í raun og veru því sem næst samstundin. Og halda síðan áfram að álykta langt fram á morgun og fram í svarta nóttina,“ sagði Bjarni á fundinum og beinir orðum sínum af samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn.

„Þarna hefði ég kosið að menn hefðu dregið andann í kviðinn,“ bætti formaður Sjálfstæðisflokksins við. „En þetta er staðan,“ sagði hann.