„Fjölmiðar eiga að veita aðhald og vera vettvangur opinnar umræðu um mikilvæg þjóðfélagsmál. En það þarf að vanda sig," segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Facebook síðu sinni.

„Vilji menn gefa sig út fyrir að gæta hlutleysis og vandaðrar blaðamennsku geri ég þá kröfu fyrir mitt leyti að það sé ekki boðið upp á rakalausan þvætting og slegið yfir feitletraðri fyrirsögn. Þetta hér er slík ,,frétt"," segir Bjarni og vísar til þessarar fréttar sem ber fyrirsögnina: „Hver skandallinn á fætur öðrum."

Fréttamennska Vísis skandall

Bjarni segir að ritstjórn Vísis hafi „legið svo mikið niðri fyrir" vegna þess að raforkuskattur á álfyrirtæki hafi ekki verið framlengdur, að í umfjöllun miðilsins hafi verið farið rangt með staðreyndir. „Raforkuskattur fellur niður um næstu áramót. Í frétt dagsins segir að ég hafi tilkynnt þetta á fundi Samáls. Hið rétta er að þetta hefur legið fyrir síðan 2013," segir Bjarni.

„Fyrst (2013) leggur visir.is upp með að það sé skandall að fella ekki skattinn niður fyrr en 2015. Svo er því haldið fram að þetta sé nýákveðið og að það sé skandall að hann falli niður 2015. Mín niðurstaða þessi fréttamennska er skandall," segir hann jafnframt.

Reyna að skapa vafasöm hugrenningartengsl

Því næst víkur fjármálaráðherra að umfjöllun Vísis í tengslum við sölu Landsbankans á hlut í Borgun. „Landsbankinn selur Borgun. Þessi skandall er skrifaður á fjármála- og efnahagsráðherra. Fyrir þessum banka fer stjórn. Í stjórnina er skipað af Bankasýslunni algerlega án afskipta ráðherra. Þessi frétt lætur að því liggja að ráðherra eigi að bera ábyrgð á ákvörðunum bankans. Ritstjórn visis.is er samkvæmt þessu þeirrar skoðunar að ráðherra eigi að stjórna Landsbankanum. Mín skoðun er sú að sú afstaða er skandall," segir Bjarni.

Hann segir jafnframt að umfjöllun Vísis um málið hafi ekki getað talist góð fréttamennska. „Varla er skandallinn að frændi ráðherra, sem ekkert hefur með málið að gera, sé í kaupendahópnum? Þessi blaðamennska er fyrir mér skandall."