Árið 1979 hóf Frjáls verslun að birta lista yfir afkomu og lykiltölur í rekstri 100 stærstu fyrirtækja landsins. Var þetta í ritstjórnartíð Markúsar Arnar Antonssonar en á þessum tíma var blaðið gefið út af Frjálsu framtaki hf. og var Jóhann Briem framkvæmdastjóri. Þess ber að geta að fyrir þennan tíma höfðu birst ámóta listar yfir afkomu stærstu fyrirtækjanna. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar.

Á þeim fjörutíu árum sem liðin eru síðan fyrsti formlegi listinn birtist hafa ýmsir komið að vinnslunni. Árið 1991 kom til að mynda liðlega 21 árs gamall laganemi að úrvinnslunni en það var Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Vann hann við gerð listanna í þrjú ár. Á þessum árum leiddi Jón Birgir Pétursson fréttastjóri vinnuna. Árið 2000 jókst umfangið og byrjað var að birta lista yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins. Jón G. Hauksson var ritstjóri blaðsins á þessum tíma og útgefandi var Talnakönnun hf., fyrirtæki Benedikts Jóhannessonar.

Þess má geta að nú styttist í útgáfu bókarinnar 300 stærstu en hún mun koma út í nóvember.

80 ára afmælisrit Frjálsrar verslunar má finna á helstu sölustöðum. Einnig er hægt að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .