Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, varar Seðlabankann við því að hækka vexti frekar á næsta vaxtaákvörðunarfundi og bendir á að bankinn verði að horfa á vaxtaumhverfið í löndunum í kringum Ísland. Bloomberg Business greinir frá þessu.

Greiningardeildir stóru bankanna, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, hafa allar spáð því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að hækka stýrivexti um 0,5 prósentur næsta miðvikudag vegna aukinna verðbólguvæntinga. Munu stýrivextir því nema 6,25% gangi spár bankanna eftir.

Valdimar Ármann, sjóðsstjóri hjá GAMMA, segir í samtali við Bloomberg að Seðlabankinn þurfi að taka tillit til vaxtastigs í öðrum löndum þar sem of mikill vaxtamunur geti kallað á ýmis önnur vandamál, svo sem vaxtamunarviðskipti.

Bjarni segir að vaxtamunarviðskiptin séu einn af þeim hlutum sem Íslendingar hafi brennt sig á í aðdraganda hrunsins og þeir þurfi að læra af þeim. Segir hann takmarkanir vera til staðar á því hversu háir vextirnir geti verið á Íslandi í samanburði við löndin í kring.

Hann segir að Seðlbankinn þurfi að gæta þess að skapa ekki frekari hættu hér á landi með því að hækka vextina of mikið. Þá þurfi stjórnvöld einnig að ná betra samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um að setja áhersluna á lágt vaxtastig í forgang.