Mikilvægt er talið að skoða hvort ástæða sé til þess að gera breytingar á skipulagi fjármálamarkaða og Fjármálaeftirlitsins (FME) í því skyni að efla samstarf og skýra verkaskiptingu á milli FME og Seðlabankans. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti minnisblað þessa efnis á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Á meðal annarra breytinga sem þar eru boðaðar er sú að auglýst verður í starf seðlabankastjóra. Már Guðmundsson var skipaður seðlabankastjóri í júní árið 2009. Hann tók til starfa í ágúst 2009 og var skipaður til fimm ára.

Í tilkynningu á vef Fjármálaráðuneytis um breytingu á lögum um Seðlabankann segir að nokkur reynsla hafi fengist á þá skipan sem ákveðin var með breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands í febrúar 2009. Að mati fjármála- og efnahagsráðherra sé tímabært að taka þær breytingar og fleiri þætti er varða lög um Seðlabankann til endurskoðunar.