Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra býst við því að takmarkaður áhugi verði á því hjá erlendum aðilum að kaupa hlut í íslensku bönkunum á meðan gjaldeyrishöftin eru enn við lýði. Þetta sagði Bjarni á fundi VÍB um íslensku krónuna. „Ég vonast til þessa að við getum fengið erlenda eignaraðild að íslenska fjármálakerfinu,“ sagði Bjarni

Bjarni sagðist hafa verið viðstaddur þingflokksfund sjálfstæðismanna þegar hugmyndin um gjaldeyrishöftin var kynnt árið 2008. Þá hafi menn búist við því að þau þyrftu ekki að vara nema í tvö ár. Síðan hafi menn gert sér grein fyrir því að vandinn væri umfangsmeiri en ráðgert hafði verið.

„Síðan eru liðin öll þessi ár frá 2008. Það hefur komið í ljós eftir því sem tíminn hefur liðið að verkefnið er miklu stærra og erfiðara en áður hafði verið talið,“ segir Bjarni.

Bjarni sagði að síðustu tólf  til átján mánuði hafi menn séð til botns í þessum vanda og getað skilgreint hann. „Við erum í miklu betri stöðu en við vorum fyrir ári síðan til þess að takast á við hann,“ segir Bjarni.

Fyrirfram var ráðgert að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra myndu báðir taka þátt í umræðunum en Sigmundur Davíð boðaði forföll.