Dale Carnegie á Íslandi hefur ákveðið að veita Gunnari Einarssyni, bæjarstjóra Garðabæjar leiðtogaverðlaun Dale Carnegie. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum og einstaklingum sem þykja skara fram úr á sviði mannauðsstjórnunar og hafa sýnt frumkvæði og sköpun í starfsemi fyrirtækja sinna. Tilefni verðlaunanna er sú ákvörðun bæjarstjóra að bjóða unglingum í Garðabæ upp á námskeiðið Næstu kynslóð, í samvinnu við Dale Carnegie. Í rökstuðningi frá Dale Carnegie segir að með því hafi Garðabær stigið stórt skref í þróun framtíðarleiðtoga Garðabæjar og þjóðarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi viðurkenning er veitt hér á landi en árlega eru veitt 6-8 leiðtogaverðlaun í heiminum.

Meðal fyrirtækja og einstaklinga sem hlotið hafa þessa viðurkenningu eru Daimler–Chrysler Corporation og forstjóri þeirra Mr. Lee Iacocca og SAS Scandinavian airlines og forstjóri þeirra Mr. Jan Carlson.

Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Jónshúsi, Strikinu 6 í Garðabæ, þriðjudaginn 6. nóvember kl. 17.  Jean-Louis VanDoorne fulltrúi Dale Carnegie and Associates afhendir verðlaunin.