Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segist telja að útreikningar héraðsfréttablaðsins Bæjarins Besta um 4 milljarða króna skuldastöðu bæjarins séu nokkuð nærri lagi. Segir hann að nú sé unnið að miklum hagræðingaraðgerðum til að reyna að standa undir afborgunum af lánum.   „Þetta er allur pakkinn og ekkert undanskilið, þarna er verið að tala um allar skuldir bæði vegna A-hluta, hafnarinnar, fasteigna Ísafjarðarbæjar og annarra þátta. Af þessum skuldum eru fasteignir um 1,2 til 1,4 milljarðar króna. Þá eru um 800 milljónir króna lífeyrisskuldbindingar.   Hvað rekstur sveitarfélagsins varðar eru þrír þættir sem skipta mestu máli og það er sameiginlegt með Ísafjarðarbæ og flestum öðrum sveitarfélögum og varðar tekjulækkun. Í fyrsta lagi lækkar jöfnunarsjóður úr 1,4 milljörðum í 1 milljarð, en hann er hlutfalla af tekjum ríkissjóðs. Svo reiknum við með að útsvarið vaxi ekki eins og það hefur gert, heldur frekar að það standi í stað. Síðan er mikil kostnaðaraukning vegna kostnaðarhækkana í aðkeyptum aðföngum og vegna lána.”   Halldór segir að vegna hrunsins í efnahagslífinu þá hafi tafist að klára fjárhagsáætlun bæjarins, en því verki ljúki 5. febrúar.   „Við erum í mjög miklum hagræðingaraðgerðum og stefnan er sú að það þurfi ekki að taka lán nema vegna skuldbreytinga eða annars slíks. Við verðum að hagræða til að reksturinn standi undir afborgunum af lánum.”   Halldór segir að byrjað hafi verið á því að skoða stjórnsýsluna og þar hafi laun bæjarstjóra verið lækkuð um 10%. „Síðan erum við að ræða við þá sem eru með 350 þúsund eða meira á mánuði um ákveðna tímabundna launalækkun.   Hann segir að reynt verði að komast hjá uppsögnum og heldur miðað við að ráða helst ekki í þær stöður sem losna þegar fólk hættir t.d. sökum aldurs.   „Við getum þó alls ekki útilokað að í einhverjum tilvikum þurfi að segja upp fólki.”   Hann segist telja að ekki þurfi að skerða þjónustu mikið, en fremur sé litið til þess að reyna að sameina þjónustu meira en orðið er og þá á færri staði. Þannig verði t.d. litið til þess hvort einhver möguleiki sé á hagræðingu í skólakerfinu eða sameiningum á einhverjum stofnunum. Skíðasvæðið er engin undantekning, en þar er nú sparað í rekstri eins og hægt er.   Halldór segir að rekstarumhverfi sveitarfélaga eins og allra annarra hafi breyst mjög hratt til hins verra á síðustu mánuðum. Ísafjarðarbær muni því nýta sér hámarks útsvarsálagningarprósentu, eða 13,28%. Samt verði reyna að komast hjá því að hækka gjaldskrár.   „Ég held að staðan hjá okkur sé hvorki betri né verri en hjá öðrum. Árið 2008 var eitt stærsta framkvæmdaár í sögu Ísafjarðarbæjar. Það var árið sem við kláruðum viðbyggingu grunnskólans, en við höfðum verið að velta þessu á undan okkur allar götur síðan 1996. Í raun höfum við þó ekki náð að klárað fjármagna þetta ennþá og í rauninni má segja sem betur fer. Því við planið var að taka erlent lán til þessara framkvæmda. Ég er þó þokkalega bjartsýnn á að fjármögnunin muni ganga upp á þessu ári þar sem bæði lífeyrissjóðir og einhverjir skuldabréfasjóðir þurfa að koma sínum peningum í vinnu.