Bæjarstjórn Álftaness hefur samþykkt að fara þess á leit við Garðabæ að hefja formlegar samningaviðræður um mögulega sameiningu sveitarfélaganna. Aðdragandi málsins er sá að með samningi bæjarstjórnar Álftaness við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga samþykkti bæjarstjórnin að hefja þegar viðræður við önnur sveitarfélög um mögulega sameiningu. Í mars var gerð skoðanakönnun meðal íbúa á Álftanesi þar sem niðurstaðan var að flestir vildu sameinast Garðabæ eða 44% og næstflestir vildu sameinast Reykjavík eða 34%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem bæjarstjórn Álftaness hefur sent frá sér.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að það er von bæjarstjórnar Álftaness að íbúar á Álftanesi muni á haustdögum geta sagt skoðun sína um mögulega sameiningu sveitarfélagsins við Garðabæ í íbúakosningu. Bæjarstjórn Álftanes þakkar jafnframt Reykjavíkurborg fyrir að sýna áhuga á mögulegri sameiningu. Bæjarstjórn Álftanes vill hins vegar fara eftir vilja íbúanna samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar og hefja fyrst viðræður við Garðabæ.