Bæjarstjórn Hveragerðis hefur samþykkt ályktun þar sem þess er krafist að vegur um Hellisheiði verði settur á vegaáætlun. Hröð uppbygging á Árborgarsvæðinu, virkjanáform Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði og mikill vöxtur í ferðamennsku eru nefnd til sögunnar í ályktun bæjarstjórnar sem helstu ástæður gríðarlegrar aukningar umferðar um Hellisheiði á síðustu árum. Aukningin sló þó öll met á síðasta ári enda nam hún allt að 12% á ákveðnum vegarköflum samkvæmt talningu Vegagerðarinnar.

Bæjarstjórn bendir einnig á að talsverður fjöldi höfuðborgarbúa sæki vinnu sína daglega austur fyrir fjall og enn fleiri eigi þar sumarhús. Því séu vegabætur um Hellisheiði mikilvægt hagsmunamál höfuðborgarbúa jafnt sem Sunnlendinga Bæjarstjórn gerir þá kröfu að endurbætur á veginum um Hellisheiði verði teknar inn í endurskoðun vegaáætlunar sem nú stendur yfir á Alþingi.

Í ályktun Hvergerðinga er bent á að Árborgarsvæðið er eitt mesta vaxtarsvæði landsins. Árið 2004 fjölgaði íbúum svæðisins um rúmlega 400 og í Hveragerði var hæsta hlutfallslega fjölgun íbúa á landinu síðastliðið ár eða um 7%. Kannanir benda til að á milli 10-15% íbúa svæðisins sækja vinnu til höfðuborgarsvæðisins daglega. Undanfarin ár hefur átt sér stað mikil fjölgun þjónustustarfa á svæðinu sem m.a. hefur leitt til aukinnar umferðar fólks af höfuðborgarsvæðinu sem sækir vinnu sína austur fyrir fjall. Uppbygging Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði og sívaxandi fjöldi sumarhúsa á Suðurlandi skapa líka mikla umferð allt árið um kring eins og kunnugt er. Þessi þróun undirstrikar þá staðreynd að bættar samgöngur um Hellisheiði eru brýnar og ekki einkamál Sunnlendinga heldur jafnframt mikið hagsmunamál fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Nýjar tölur frá Vegagerðinni um umferðarþunga á Suðurlandsvegi um Hellisheiði eru sláandi og undirstrika þá þróun sem að framan er lýst. Aukning umferðar á Hellisheiði að Selfossi á síðasta ári er á bilinu 7-12%, eftir því á hvaða vegarkafla er horft. Umferðin á umræddri leið hefur því sem næst tvöfaldast frá árinu 1992 og mest hefur aukningin verið á allra síðustu árum.

Í ályktuninni er bent á að sú staðreynd að endurbætur á veginum um Hellisheiði eru ekki inni í þeirri samgönguáætlun sem nú er til endurskoðunar hjá Alþingi veldur bæjarstjórn miklum áhyggjum og í ljósi þess sem að ofan er talið gerir bæjarstjórn Hveragerðisbæjar þá kröfu að úr því verði bætt sem fyrst.

Að lokum vill bæjarstjórn fagna þeirri sátt sem hefur nú skapast um fyrirkomulag nýrra Þrengslavegamóta á Suðurlandsvegi. Eru þingmönnum Suðurkjördæmis og öðrum sem að málinu unnu færðar þakkir fyrir vel unnin störf í þessu mikilvæga hagsmunamáli allra vegfarenda. Bæjarstjórn lýsir jafnframt yfir miklum áhuga á framkomnum hugmyndum um lýsingu vegarins og mögulega notkun á heitu vatni til snjóbræðslu á honum
Ljóst er að þörfin fyrir opna umræðu um málið er brýn og því felur bæjarstjórn bæjarstjóra að leggja drög að skipulagningu opins fundar um þetta mikilvæga málefni í samvinnu við aðra hagsmunaaðila.