Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur samþykkt að veita Rafmagnsveitum ríkisins leyfi til framkvæmda við stækkun Lagarfossvirkjunar. RARIK hyggst nýta aukið rennsli í Lagarfljóti, með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar, sem gefur möguleika á stækkun um allt að 18 MW. Þetta þýddi ríflega þriðjungs stækkun Lagarfossvirkunar en hún er 7.5 MW í dag. Áætlaður framkvæmdakostnaður er tæpir 3 milljarðar króna og er gert ráð fyrir að virkjunin verði tekin í notkun vorið 2007.

Leyfið er veitt með eftirfarandi skilyrðum:

a) RARIK hefur lagt fram yfirlýsingu dags. 15.03.2005 sem bæjarstjórn metur fullnægjandi um það hvernig fyrirtækið hyggist standa að samningagerð við landeigendur við Lagarfljót ofan stíflu um breytingar á stýringu vatnsborðs Lagarfljóts og um málsmeðferð vegna ólokinna bótamála.

b) Fyrirkomulag haugsetningar og frágangur haugsetningarsvæða skal vera í samráði við Fljótsdalshérað og Umhverfisstofnun.

c) Fyrir liggur samningur milli Vegagerðarinnar og Rafmagnsveitna ríkisins þar sem fram kemur að vegtenging verður um Lagarfoss á milli Hróarstungu og Hjaltastaðaþinghár.