Hagnaður Eimskips á þriðja fjórðungi nam 7,5 milljónum evra sem er 48% hækkun frá sama fjórðungi árið áður eða um 2,4 milljónir evra. Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 7,3% frá þriðja ársfjórðungi í fyrra. Kristján Markús Bragason, hjá Greiningu Íslandsbanka, segir uppgjörið í takt við spá þeirra og hafi verið prýðilegt.

„Nýting fasts kostnaðar er að stórbatna og telja verður nokkuð bjart fram undan í rekstri félagsins. Nýjar bráðabirgðatölur um minni vöxt í einkaneyslu eru þó áhyggjuefni, en þær sýndu einkaneysluvöxt upp á 2,8% á fyrstu 9 mánuðum ársins en búist var við meiri vexti. Rétt er að hafa í huga að þessar tölur kunna að breytast við síðari endurskoðanir og er okkar mat að einkaneyslan reynist meiri,“ segir Kristján Markús.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .