*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 28. desember 2007 12:52

Bjartar horfur hjá Marel

Samþættingin við Stork er stóra málið á nýju ári

Ritstjórn

Lárus Ásgeirsson, aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri sölunets Marel Food Systems, líst vel á horfurnar á nýju ári. Árið sem nú er að líða var mjög annasamt hjá fyrirtækinu,  en vinna við yfirtöku á Stork Food Systems í Hollandi setti mikinn svip á starfsemina og er enn ekki formlega lokið.

"Stóra dæmið verður í kringum Stork við að ná fram samlegðaráhrifum og samþættingu milli Marel Food Systems og Stork Food Systems. Þar með munum við tryggja okkur mjög sterka stöðu í kjúklingaiðnaði og tækifæri til að vaxa, sérstaklega í Asíu.

Þessi kaup eru enn ekki í hendi og samkeppnisyfirvöld eru að skoða þetta mál. Það er þó yfirlýst að stefnt sé að því að halda rekstri fyrirtækjanna aðskildum. Samt sem áður er stefnt að mikilli samvinnu og á sérstaklega gagnvart viðskiptavinum úti á mörkuðunum."

Lárus segir að á heimsvísu sé langmesti vöxtur í kjúklinganeyslunni. Þar ráði einkum ferðinni að kjúklingar eru ódýrasta próteinið sem völ er á og jafnframt hlutlaus matvæli í menningarlegu tilliti. Þar bendir hann á að nautakjöt og svínakjöt séu víða ekki borðuð af trúarlegum ástæðum, en slíkt eigi ekki við varðandi kjúklingakjöt.

"Þetta er framtíðarprótein í Asíu þar sem fólk er að færa sína neyslu úr hrísgrjónum og grænmeti yfir í  próteinafurðir. Með aukinni velmegun í Asíu og einnig í Suður Ameríku eykst líka neysla  þessara próteinafurða."

Lárus bendir einnig á að þróun í neysluvenjum hafi verið að breytast ört á síðustu árum ekki síst á Vesturlöndum. Fyrir nokkrum áratugum var algengt að undirbúningur að matreiðslu hverrar máltíðar tæki um tvær klukkustundir. Nú sé undirbúningurinn að meðaltali kominn niður í tíu mínútur.  Auk þess neyti menn nokkurra máltíða í hverri viku í bílum sínum. Í þessari þróun liggi líka gríðarleg tækifæri fyrir fyrirtæki eins og Marel og Stork varðandi smíði tækjabúnaðar fyrir fullvinnslu matvæla.

"Þá má nefn að ytri aðstæður eru góðar varðandi kjúklingaiðnaðinn og fátt sem ógnar. Fuglaflensan er ekki að trufla neitt og almennt eru horfur á mörkuðum góðar. Þó einhver dýfa verði og efnahagskreppa þá þarf fólk áfram að borða. Þannig að við tökum ekki nema að litlu leyti inn á okkur þó þrengingar verði í heiminum," segir Lárus Ásgeirsson.

Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marels, tekur undir þetta. Eftir að búið sé að fimmfalda stærð félagsins á tveimur árum verði áherslan nú lögð á  samþættingarvinnu og innri vöxt. Þá virðist landslagið framundan vera gott óháð efnahagsástandi. Hækkun á próteinverði ásamt auknum kröfum um nýtingarhlutföll í matvælaiðnaði samfara aukinni eftirspurn skipti miklu máli í því sambandi.

“Framundan er einnig mikið vaxtaskeið í Austur-Evrópu, Suður-Ameríku og síðan í Asíu í framhaldinu,” segir Árni.