Samanlagt tap BL, Öskju, Toyota, Heklu og Brimborgar nam 1,7 milljörðum króna á síðasta ári. Öll helstu bílaumboðin voru með neikvæða afkomu á síðasta ári að Bílabúð Benna undanskildri. Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambands Íslands og framkvæmdastjóri Öskju, segist hins vegar nokkuð bjartsýnn á framhaldið. Viðskiptamogginn greinir frá þessu.

Þar kemur fram að eiginfjárhlutfall bílaumboðanna hafi lækkað nokkuð á milli ára, en það var 21,2% árið 2012 en á síðasta ári var það komið niður í 14,7%. Eiginfjárhlutfall Bílabúðar Benna var þó 69,6% um síðustu áramót, en eiginfjárhlutfall Toyota var hins vegar neikvætt um 36% á sama tíma.

Jón Trausti segir í samtali við Viðskiptamoggann að veltan hafi verið ágæt í fyrra en afkoman ekkert sérstök. Árið hafi því verið mikil vonbrigði fyrir bílaumboðin. Hann bendir jafnframt á að þrátt fyrir 30% aukningu á bílasölu á þessu ári sé salan 20-30% undir því sem eðlilegt þyki til að viðhalda eðlilegri endurnýjun. Þó segir hann nokkuð bjartsýnn á framhaldið og á von á töluverðri endurnýjun á næstu fimm árum.