Horfur í efnahagslífi á Evrusvæðinu eru nú bjartari en verið hefur undanfarin misseri ef marka má nýjustu hagtölur og spár, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Eurostat staðfesti áætlun um 0,6% hagvöxt á fyrsta fjórðungi ársins, miðað við síðasta fjórðung 2005, og jafngildir það 1,9% vexti milli ára.

?Vöxturinn var drifinn af verulegri aukningu einkaneyslu og aukningu útflutnings umfram innflutning. Má telja það jákvæða þróun í ljósi þess að einkaneysla hefur undanfarin misseri verið einn helsti dragbítur hagvaxtar á svæðinu," segir greiningardeildin, sem bendir á að atvinnuleysi fari einnig jafnt og þétt lækkandi í evrulöndum og mældist að jafnaði 8% í apríl en það hefur ekki mælst minna síðan í ársbyrjun 2002.

?Þá benda væntingavísitölur til þess að jafnt neytendur sem framleiðendur séu bjartsýnni en oft áður hvað varðar stöðu og horfur í efnahagsmálum. Síðast en ekki síst benda tölur til þess að framleiðsluvöxtur hafi verið hraðari á Evrusvæði í síðasta mánuði en dæmi eru um undanfarin sex ár eða svo," segir greiningardeildin.

Þessi þróun eykur líkur á að verðbólga á Evrusvæðinu fari vaxandi á næstu mánuðum. ?Þar með hafa væntingar um stýrivaxtahækkun evrópska seðlabankans þokast í átt til meiri hækkunar en ella á næsta vaxtaákvörðunardegi, 8. júní."

Greiningardeildin segir að flestir spáaðilar búist við 25 punkta hækkun og að stýrivextir bankans verði þá 2,75% en 50 punkta hækkun er þó talin öllu líklegri en áður í ljósi nýjustu talna. Svipaða sögu má raunar segja af væntingum um vaxtaákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna í júnílok, þar búast menn nú frekar við hækkun vaxta en áður.