Það var rífandi gangur í fiskþurrkuninni hjá Haustaki á Reykjanesi þegar Fiskifréttir litu þar við fyrir skemmstu. Sölumál ytra eru í mun betra horfi en verið hefur og afurðirnar fara beint úr þurrkun og pökkun í 40 feta gáma til Nígeríu. Birgðastaða er engin. Það er því allt öðru vísi umhorfs núna en á árunum 2015-2016 þegar mikið verðfall var á þurrkuðum fiskafurðum vegna stjórnmálaástandsins og fjárhagskreppu í Nígeríu.

Víkingur Þórir Víkingsson framkvæmdastjóri fer að jafnaði tvisvar á ári til Nígeríu til þess að fylgjast með ástandinu og markaðnum. Hann er vanur þessum stóru kollsteypum sem verða reglulega þar í landi og tengjast oftar en ekki heimsviðskiptum með olíu. Þetta 190 milljón manna ríki í vesturhluta Afríku er 8. stærsta olíuútflutningsþjóð heims og efnahagurinn því beintengdur heimsmarkaðsverði á olíu.

Það vekur athygli þegar gengið er um sali Haustaks hve lyktarlaus húsakynnin eru miðað við þá starfsemi sem þar fer fram. Víkingur Þórir segir að þarna fari fram matvælaframleiðsla. Hreinlæti og þrif séu því ofarlega á forgangslistanum.

„Áður var talað um vinnslu á aukaafurðum en núna er bara talað um afurð. Fiskurinn var unninn í Grindavík í gær og við setjum hausana í þurrk í dag. Það sem var unnið fyrir hádegi hjá okkur fer í þurrk eftir hádegi. Ferlið og gæðin út á markaðinn er allt annað en var áður.“

Annað sem breyttist eftir mögru árin 201-2016 er sóknin eftir gæðum. Áður var áherslan á að framleiða sem mest en nú hefur það snúist yfir í það að framleiða sem mest gæði.

„Til lengri tíma litið eru það gæðin sem fleyta okkur áfram, ekki magnið.“

Að meðaltali er unnið úr um 65 tonnum á dag af hausum og beinum. Megnið af hráefninu kemur frá Vísi og Þorbirni og einnig hefur Haustak tekið yfirfallið frá öðrum þegar mikið berst af fiski á land.

Á réttri leið

Þegar verst lét lækkaði verð frá kaupendum í Nígeríu um 60% og það gerðist mjög hratt. Framleiðslan hélt engu að síður áfram. Loks stöðvaðist salan og birgðir söfnuðust upp. Sú stund rann upp að selja varð birgðirnar og það var gert á 60% lægra verði en hafði fengist fyrir erfiðleikana í Nígeríu. Reksturinn stóð engan veginn undir framleiðslukostnaði. Víkingur Þórir segir að horft hafi verið á þetta sem verkefni sem þyrfti að leysa.

„Mér leist ekkert á blikuna á tímabili en svo þegar þetta er yfirstaðið lít ég á þetta sem dýrmæta reynslu í bankann. Við þurftum að draga úr allri starfseminni og loka þurrkun Haustaks fyrir austan. Þetta var erfiður tími en lærdómsríkur.“

Í heildina tekið fara yfir vertíðarmánuðina á bilinu 90-100 24 feta gámar af þurrkuðum fiskafurðum til Nígeríu frá Íslandi. Um 22 tonn eru í gámnum þannig að í hverju mánuði eru flutt út um 2.200 tonn. Á síðasta ári nam útflutningurinn 21.000 tonni.

„Verðið mætti vera hærra en við erum á réttri leið. Síðustu tvö ár hefur þetta þokast upp en við eigum ennþá langt í land með að ná verðinu upp þar sem það var fyrir hrun. En framleiðslan stendur vel undir sér núna.“