Fjárfestar virðast bera talsvert traust til Icelandair en hlutabréf flugfélagsins höfðu hækkað um 104% á ríflega mánuði og stóðu í 1,84 krónum þegar bréfin fóru sem hæst í síðustu viku. Markaðsvirði félagsins rauk sömuleiðis upp og var þá metið á um 52 milljarða króna. Til samanburðar fór markaðsverð Icelandair – áður en heimsfaraldurinn skall á – hæst á þessu ári í um 48 milljarða króna í febrúar. Þá stóðu bréf flugfélagsins í 8,8 krónum hvert en í upphafi árs voru þau í 7,6 krónum. Á fimmtudag og föstudag í síðustu viku lækkuðu bréf Icelandair og enduðu vikuna í 1,71 krónu.

Snorri Jakobsson, hlutabréfagreinandi og stofnandi Jakobsson Capital, bendir á að hann taldi Icelandair undirverðlagt um ríflega þriðjung í febrúar. Markaðurinn hafi því ekki gefið rétta mynd af virði flugfélagsins á þeim tíma. Verðmatið byggði á þriðja ársfjórðungi 2019 og hljóðaði upp á 63 milljarða króna þar sem hvert hlutabréf var metið á 11,6 krónur.

Snorri segir sömuleiðis að Icelandair „sé gríðarlega næmt fyrir forsendubreytingum“. Til að mynda hafi nýir kjarasamningar Icelandair við lykilstéttir – sem skrifað var undir í maí og júní á þessu ári – hækkað verðmat félagsins talsvert. Enn fremur er vert að benda á að óvissa hvað varðar kyrrsetningu á Boeing 737 Max flugvélunum hefur minnkað og félagið hefur tryggt sér aukið fé með 23 milljarða króna hlutafjárútboði.

Már Wolfgang Mixa, lektor við Háskólann í Reykjavík, bendir á að rekstur Icelandair sé metinn á talsvert lægri fjárhæð en félagið í heild sinni. Í kjölfar hlutafjárútboðsins sitji félagið á miklu reiðufé, í von og óvon um að reksturinn rétti úr kútnum. Þrátt fyrir að markaðsvirði Icelandair hafi hækkað töluvert, sem nemur um það bil hlutafjárútboðinu, hafi virði undirliggjandi reksturs ekki endilega gert það.

Már bendir einnig á að hefði Icelandair tryggt sér áframhaldandi rekstur með lánsfé hefði markaðsvirði Icelandair verið lægra sem nemur hlutafjárútboðinu þrátt fyrir að heildarvirði félagsins (e. enterprise value) hefði verið sambærilegt og nú. Auk áðurnefndra þátta hafa náðst samningar við fleiri hagaðila líkt og kröfuhafa og birgja.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .