Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í dag að hún væri mjög bjartsýn á að Icesave-málið yrði farsællega til lykta leitt á þinginu.

Þetta kom meðal annars fram í svari hennar við fyrirspurn Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Hann innti hana þar eftir því hvort hún teldi líklegt að Icesave-málið hefði meirihlutastuðning í þinginu.

Hún svaraði því ekki beint en sagði að hún gæti upplýst Birgi um að „það [væri] fullur einhugur um það í þingflokki Vinstri grænna að málið fengi hér þinglega meðferð enda voru allir sammála um það í þingflokki VG að málið hefði tekið miklum og góðum og jákvæðum breytingum frá því fyrr í sumar," sagði hún.

Hún sagði að samningsstaða Íslands hefði augljóslega styrkst við þá fyrirvara sem Alþingi hefði sett við ríkisábyrgðina í sumar. „Andi þeirra", eins og hún orðaði það, væri þarna mjög sterkur inni. „Ekki bara í einhliða yfirlýsingu Íslands heldur í þeim samningsdrögum sem þarna [liggja] fyrir."

Í lokin sagði hún: „Ég sem þingflokksformaður VG - hafandi setið alla okkar fundi um þessi mál - er mjög bjartsýn á að málið verði farsællega til lykta leitt í þinginu."