Hrefna Lind Ásgeirsdóttir hefur starfað innan hugbúnaðargeirans frá árinu 2006. Hún hefur starfað sem forritari hjá bæði Landsbankanum og Advania en gekk til liðs við Meniga árið 2012. Frá þeim tíma hefur Hrefna gegnt ýmsum lykilstörfum innan fyrirtækisins, síðast sem vörustjóri en tekur nú við starfi framkvæmdastjóra hugbúnaðarþróunar.

„Deildin sér um þróun á allri hugbúnaðarþróun á kjarnavöru fyrirtækisins. Ég nýt þeirra forréttinda að leiða eina öflugustu hugbúnaðardeild landsins, sem gerir mig stolta og bjartsýna fyrir framtíð fyrirtækisins,“ segir Hrefna. „Meniga er í dag að vinna með stærstu bönkum Evrópu við að búa til næstu kynslóð af netbönkum. Íslenski markaðurinn er okkur einnig afar mikilvægur en við höfum unnið náið með bönkunum á Íslandi í okkar vöruþróun. Við gáfum sem dæmi út fyrstu heimilisfjármálalausn Evrópu með Íslandsbanka árið 2009 og höfum verið að vinna náið með þeim undanfarið að nýjum og spennandi hlutum.“

Hrefna varð fyrsta konan til þess að útskrifast sem hugbúnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands. Spurð hvað hafi orðið til þess að fór í tæknigeirann segir hún: „Ég er alin upp á tæknilegu heimili og hef síðan ég var lítil haft mikinn áhuga á tölvum og tækni. Eitt leiddi af öðru og hér stend ég í dag.“

Hrefna er í sambúð með Tryggva Jónssyni og eru þau búsett í Kópavogi. „Ég á stóra fjölskyldu. Ég á fjögur börn, tvö börn og tvö stjúpbörn sem eru á aldrinum 4 ára til 10 ára.“ Hún segir mikið af tímanum fyrir utan vinnu fara í það að vera með fjölskyldunni og segist hún njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum. „Ég fékk hjól og hjólagalla í afmælisgjöf og neyðist því til að gerast hjólreiðakona þar sem maðurinn minn er mikill hjólreiðamað­ ur. Við erum einnig nýbúin að fjárfesta í tjaldvagni og hlökkum mikið til að njóta sumarsins með fjölskyldu og vinum.“

Nánar er rætt við Hrefnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .