Góðar horfur eru í rekstri fyrirtækja í Kauphöll Íslands á þessu ári að mati greiningardeild Landsbankans. Greiningadeildin gerir ráð fyrir að samanlögð velta tólf stærstu félaga í framleiðslu, þjónustu og iðnaði aukist um ríflega 12% á milli ára og nemi samtals 344 milljörðum króna árið 2005. Mest verður veltuaukningin hjá Kögun og Og Vodafone, en bæði félögin standa í yfirtökum á öðrum fyrirtækjum.

"Þrátt fyrir mikla tekjuaukningu gerum við ráð fyrir að samanlagður hagnaður fyrirtækjanna dragist saman um 2% á milli ára. Mikill munur er hins vegar á þróun hagnaðar eftir fyrirtækjum. Hagnaður hjá Flugleiðum, HB Granda og Samherja dregst mikið saman milli ára, en hagnaður Actavis, Bakkavör, Kögun og SÍF eykst talsvert," segir í frétt greiningardeildar.

Samanlagður hagnaður sex stærstu fyrirtækjanna í banka-, trygginga- og fjárfestingastarfsemi (Landsbanki undanskilinn) er talinn munu dragast saman um 21% á milli ára. Þetta er athyglisverð niðurstaða í ljósi þess að bæði KB banki og Íslandsbanki hafa tvöfaldað stærð sína á árinu með kaupum á dönskum og norskum bönkum. Skýring lækkandi hagnaðar liggur hins vegar í því að gert er ráð fyrir mun minni gengishagnaði af hlutabréfa- og skuldabréfaeign í ár, enda var síðasta ár með eindæmum hagfellt á verðbréfamarkaði.