Bakkavör mun kynna uppgjör sitt í dag og gera greiningardeildir bankanna ráð fyrir góðu uppgjöri. Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir mikilli veltuaukningu á ársfjórðungnum og að félagið nái 12,2% framlegð. Greiningardeild Glitnis gerir einnig ráð fyrir verulegum framlegðarbata sé miðað við fyrsta ársfjórðung. Gerir Glitnir ráð fyrir að EBITDA framlegð hækki úr 10,6% á 1. fjórðungi í 12,9% 2. ársfjórðungi.

Þess ber að geta að páskarnir falla til á fjórðungnum, en aukning sölu er talsverð í kringum þá og því skiptir máli hvort þeir falla til á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi.

Yfirlýst arðsemismarkmiði Bakkavarar eru á bilinu 12% - 14% EBITDA hlutfalli, eða um 12,6% í ár. Ljóst er að greiningardeildirnar eru að spá því að afkoman verði nálægt því.

Greiningardeild KB banka er bjartsýnust í spá sinni og spáir því að hagnaður Bakkavarar verði um 16,2 milljónir punda og mæla þeir með því að menn yfirvogi bréf sín þar. Landsbankinn spáir 13,6 milljón punda hagnaði og Glitnir spáir 12,4 milljóna punda hagnaði.

Mælt með yfirvogun

Greiningardeild Landsbankans gaf síðast úr verðmat á Bakkavör um mitt síðasta ár sem gaf verðmatsgengið 39,9 kr. á hlut. Frá þeim tíma hefur Bakkavör staðið í fyrirtækjakaupum og því vinnur greiningardeild Landsbankans að nýju verðmati þessa dagana, en þeir mæla með því að fjárfestar yfirvogi bréf sín í vel dreifðu eignasafni. Verðmatsgengi Glitnis er 55,5 og mæla þeir einnig með yfirvogun. Verðmatsgengi KB banka er 62,5.

Eignarhluti KB banka í Bakkavör var 4,85% skv. hluthafalista 7. júlí 2006.