Fyrstu uppgjör annars ársfjórðungs í Bandaríkjunum líta betur út en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta hefur dregið úr ótta fjárfesta við aðra efnahagskreppu og Dow Jones hlutabréfavísitalan hækkaði um 7,3% í liðinni viku sem er mesta vikuhækkun frá því í mars. Með þessu hefur lækkunarhrina sl. fjögurra vikna nánast verið unnin upp, að því er segir í WSJ.

71% uppgjöra yfir spám

Aðeins um 11% af helstu fyrirtækjum Bandaríkjanna hafa skilað uppgjörum þannig að enn getur margt gerst. Hingað til hafa þó 71% birtra uppgjöra verið yfir væntingum greinenda. Þetta er mun meira en venja er, en samkvæmt Thomson Reuters eru 61% uppgjöra yfirleitt yfir spám. Þar að auki, segir WSJ, hafa nokkur stór fyrirtæki, svo sem IBM, J.P. Morgan og Intel, verið tiltölulega bjartsýn um framtíðina.

Uppgjörin samt ekki góð

En þrátt fyrir að uppgjör séu yfir væntingum verður að hafa í huga að væntingar hafa ekki verið miklar og uppgjörin eru ekki sérstaklega góð. Greinendur spá því enn að samdráttur verði í hagnaði annars fjórðungs frá því í fyrra í öllum helstu undirflokkun S&P 500 hlutabréfavísitölunnar. Þá er því enn spáð að hagnaður fyrirtækja í S&P 500 í ár verði lægri en hann var í fyrra.