Það getur staðið í vegi fyrir vexti fyrirtækja ef þau hafa ekki fólk með réttu þekkinguna, segir Þóranna Jónsdóttir, deildarforseti Viðskiptadeildar við Háskólann í Reykjavík. „Til að byggja upp fyrir framtíðarhagvöxt þarf að fjárfesta í menntun, sérstaklega á þeim sviðum sem stuðla að beinni verðmætasköpun. Í kjölfar hrunsins var Íslendingum ráðlagt af þjóðum með sambærilega reynslu að draga ekki úr fjárfestingu í rannsóknum og háskólanámi. Menntastefna og atvinnustefna haldast hönd í hönd,“ segir Þóranna.

Hún bendir á að það þurfi að byggja upp fjölþætt atvinnulíf. Vöxtur ferðamannaiðnaðarins sé jákvæður, en við þurfum að hlúa betur að þeim iðnaði og átta okkur á því að sá iðnaður geti ekki vaxið endalaust né orðið okkar eina stoð. Við þurfum að huga að sjálfbærni atvinnulífsins og geirum með háa framleiðni á hvert starf svo sem orku- og hátæknigeiranum.

„Þó að framtíðarstefnu í atvinnumálum skorti má merkja aukna bjartsýni í væntingum til framtíðarinnar. Þetta sjáum við meðal annars í aukinni aðsókn í viðskiptafræðinám, en sú þekking er nauðsynleg til þess að hægt sé að nýta tækifæri, koma verðmætum á markað og auka framleiðni. Þekking á alþjóðlegu viðskiptaumhverfi er nauðsynleg og því höfum við lagt höfuðáherslu á að námið í HR sé í takt við alþjóðleg viðmið. Bæði MBA-námið og grunnámið í viðskiptafræði hafa hlotið alþjóðlegar vottanir,“ segir Þóranna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .