Hlutabréfavísitölur hafa tekið hressilega við sér beggja vegna Atlantsála í dag eftir að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sögðu aðgerða að vænta í lok mánaðar sem vonast er til að muni binda endi á skuldakreppuna á evrusvæðinu. Hluti aðgerðanna felur í sér eftirlit með eiginfjárhlutfalli banka og fjármálafyrirtækja.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum hefur nú hækkað um 2,39 prósent en S&P 500-hlutabréfavísitalan um tæp 2,8 prósent. Þá hefur FTSE-vísitalan í kauphöllinni í London í Bretlandi hækkað um 1,85 prósent það sem af er dags og DAX-vísitalan í Þýskalandi hækkað um 2,68 prósent.

Leitin að lausn skuldavanda evruríkjanna leiddi til þess að leiðtogafundi aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) sem halda átti eftir viku hefur verið slegið á frest. Fundurinn, sem standa á í tvo daga, verður haldinn 23. október næstkomandi, að því er AP-fréttastofan greinir frá.