Bjartsýni í efnahagslífinu er talin vera að aukast á evrusvæðinu eftir kreppuna, samkvæmt spá Bloomberg-fréttaveitunnar . Samkvæmt henni er líklegt að væntingarvísitalan á myntsvæðinu hækki úr 92,5 punktum í júlí í 93,8 punkta í þessum mánuði. Spáin grundvallast á því að hagvöxtur sem mældist á öðrum ársfjórðungi hafi aukið bjartsýnina og tiltrú á efnahagsbatann á evrusvæðinu. Gangi þetta eftir hefur ekki mælst eins mikil bjartsýni á evrusvæðinu í eitt og hálft ár.

Hagtölurnar hafa skilað sér í gengishækkun á hlutabréfamarkaði en Stoxx Europe 600-vísitalan hefur hækkað um 11% á síðastliðnum tveimur mánuðum auk þess sem forsvarsmenn fyrirtækja í Evrópu hafi verið að uppfæra afkomuspár sínar. Á móti bættri stöðu vegur hins vegar að atvinnuleysi á evrusvæðinu mælist enn yfir 12% og er gert ráð fyrir að það verði á svipuðum slóðum næstu tvö árin.