Bjartsýni jókst meira á milli mánaða en búist var við í röðum fjárfesta í Þýskalandi í ágúst, samkvæmt nýjustu mælingu Zew-hagfræðistofnunarinnar. Væntingarvísitala stofnunarinnar mælist 42 stig en var 36,3 stig í júlí. Hún hefur ekki staðið hærra síðan í mars í vor. Meðalspá Bloomberg hljóðaði upp á 39,9 stig.

Bloomberg-fréttastofan segir um málið þróunina skýrast af meiri hagvexti í Þýskalandi en búist var við og almennt betri horfum í heimshagkerfinu næsta hálfa árið. Aline Schuiling, hagfræðingur hjá hollenska bankanum ABN Amro bendir þó á það í samtali við Bloomberg að þótt þýska hagkerfið virðist það traust að það geti stutt við hagvöxt í öðrum ríkjum Evrópu þá megi ekki útiloka að skuldakreppan blossi upp á nýjan leik.