Dregið hefur úr bjartsýni fjármálastjóra á Íslandi á undanförnu ári, þótt bjartsýni hafi þó áfram yfirhöndina. Meirihluti fyrirtækja sér fram á vaxandi tekjur og rekstrarhagnað á komandi ári, en höfuðáhersla verður lögð á lækkun rekstrarkostnaðar. Flestir fjármálastjórar spá því að hagvöxtur á næstu tveimur árum muni standa í stað eða minnka. Sterk króna heldur áfram að vera stærsti áhættuþáttur fyrirtækja.

Þetta er meginniðurstaða könnunar ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte meðal fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins. Könnunin er gerð tvisvar á ári og er tilgangur hennar að sýna mat fjármálastjóra á stöðu fyrirtækja og hagkerfisins.

Áhersla á hagræðingu

Væntingar fjármálastjóra til reksturs næsta árið eru ekki jafn bjartsýnar og fyrir ári síðan, en batna frá síðasta hausti. Alls 65% telja að tekjur síns fyrirtækis muni aukast, samanborið við 73% fyrir ári síðan og 81% árið þar áður. Rúmlega helmingur (51%) sér fram á að EBITDA muni aukast. Flest fyrirtæki stefna á  lækkun kostnaðar og stækkun með innri vexti næsta árið og eru áherslurnar svipaðar og á fyrri árum.

Færri fyrirtæki vilja auka fjárfestingar en áður, en hlutfall fjármálastjóra sem telja að fjárfestingar muni aukast er nær það sama og hlutfall þeirra sem telja að þær muni minnka. Helmingur fyrirtækja sér ekki fram á að breyta ráðningum nýrra starfsmanna. Langstærsti hluti fyrirtækja (81%) telur ekki að nú sé góður tími til að auka áhættu.

Hagvaxtarspár dempast

Aðeins fimmtungur fjármálastjóra telur að hagvöxtur á Íslandi muni aukast á næstu tveimur árum, á meðan 80% telja að hagvöxtur muni standa í stað eða minnka. Væntingar fjármálastjóra til hagvaxtar hafa minnkað töluvert á undanförnum tveimur árum. Þeir telja þó flestir að hlutabréfaverð muni haldast óbreytt eða hækka nokkuð á innlendum markaði.

Gengisþróun krónunnar er áfram sá ytri áhættuþáttur sem helst hefur áhrif á fyrirtæki í landinu. Meirihluti fjármálastjóra telur að gengi krónunnar verði áfram sterkt eða að það veikist nokkuð næsta hálfa árið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .