Gistinætur hótela í febrúar fimmfölduðust á milli ára, fóru úr 40 í 270 þúsund. Þar af jukust gistinætur erlendra ferðamanna úr fimm þúsund í 208 þúsund. „Ferðaþjónustan er sem betur fer að taka við sér núna og það var ágæt herbergjanýting í febrúar og mars," segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels og formaður FHG - Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, í samtali við Viðskiptablaðið.

Ingólfur Haraldsson, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, tekur í sama streng og Kristófer og horfir fram á gott sumar. „Ferðamynstrið er að breytast, ferðamenn eru í lengri ferðum en áður. Ísland er og hefur verið vinsælt land til að heimsækja, en er einnig dýrt land. Við þurfum að passa að ferðamenn fái virði fyrir peninginn, að þau séu ekki rukkuð fyrir lélega þjónustu."

Kristófer segir kínverska ferðamenn ekki hafa látið sjá sig í vetur og vonast til þess að þeir komi næsta vetur, en þeir voru um 7% ferðamanna hérlendis árið 2019, samkvæmt talningum Ferðamálastofu. „Það eykur ekki líkurnar á að kínverskir ferðamenn komi hingað til lands ef það er bannað að fljúga yfir Rússland."

Sumarið verði gott

Í þjóðhagsspá Íslandsbanka sem kom út í janúar er áætlað að 1,1 til 1,2 milljónir ferðamanna heimsæki landið á árinu. Það yrði svipaður fjöldi og árið 2015, en þó 40% færri en árið 2019 þegar 2 milljónir komu til landsins. Kristófer segist vona að spá Íslandsbanka reynist full svartsýn. „Ég áætla að ferðamenn verði á bilinu 1,5 til 1,7 milljónir á þessu ári."

Kristófer segir afkastagetu íslenskrar ferðaþjónustu í samræmi við fjölda ferðamanna sem heimsótti Ísland fyrir faraldurinn og rúmlega það. Fyrir faraldur voru um og í kringum 2 milljónir ferðamanna sem komu til landsins árlega, en hann bendir á að fjöldi hótela hafi risið í Reykjavík að undanförnu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .