Það var ekkert sérlega þungt yfir svip Þorsteins Þorgeirssonar, skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, þegar hann kynnti þjóðhagsspá ráðuneytisins fyrir árin 2008 til 2010 í morgun, enda má segja að meiri bjartsýni - eða kannski öllu heldur minni svartsýni - gæti  í henni en spá Seðlabanka Íslands sem kynnt var fyrir tæpri viku og hristi óneitanlega upp í mörgum.

Enda er engum blöðum um það að fletta að verulegur munur er á spánum og þá ekki síst í því að fjármálaráðuneytið virðist sjá fyrr sér að niðursveiflan í hagkerfinu muni standa skemur en Seðlabankinn reiknar með.

Báðir spá að vísu verulegum samdrætti í einkaneyslu og hagvexti á árinu 2009 en fjármálaráðuneytið virðist ganga út frá því að niðursveiflan verði tiltölulega skammvinn.

Fjármálaráðuneytið gerir þannig ráð fyrir að hagkerfið muni verða farið að taka við sér á nýjan leik árið 2010, eftir samdrátt á næstu ári og að hagvöxtur verði þá jákvæður um rétt innan við 1%.

Seðlabankinn reiknar á hinn bóginn með meiri samdrætti í þjóðarframleiðslunni á næsta ári og að sá samdráttur muni halda áfram á árinu 2010.

Þessi grundvallarmunur á því hversu fljótt hagkerfið verður að komast upp úr öldudalnum kristallast meðal annars í því að fjármálaráðuneytið reiknar með að einkaneyslan fari að vaxa aftur á árinu 2010 og að aukningin verði 3,2% en seðlabankamenn eru miklum mun svartsýnni og gera ráð fyrir 6,6% samdrætti í einkaneyslunni.

_____________________________________

Nánar verður fjallað um nýja þjóðhagsspá í Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .