Gert er ráð fyrir því að flugiðnaðurinn á heimsvísku hagnist um tæpa 9 milljarða Bandaríkjadali á þessu ári, samkvæmt nýjum tölum Alþjóðasamtaka flugrekenda (IATA).

Í skýrslu IATA, sem birt var í morgun, segir að allt útlit sé fyrir að rekstrarbati flugfélaga á heimsvísu verði öflugri og hraðari en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Þessar tölur vekja óneitanlega mikla athygli þar sem IATA hefur sl. tvö ár verið mjög svartsýnt á afkomu flugfélaga (sjá tengdar fréttir hér að neðan). Í júní sl. spáði IATA þó að hagnaður flugfélaga á þessu ári yrði þó um 2,5 milljarðar dala en fyrr á þessu ári, í mars, hafði IATA spáð því að tap flugfélaga á heimsvísu yrði um 2,8 milljarðar dala.

Það er aukin eftirspurn og stöðugri rekstrarkostnaður sem veldur breytingu í spá IATA nú. Þannig má nefna að olíuverð hefur haldist stöðugra en gert hafði verið ráð fyrir auk þess sem tölur yfir farþegaflutninga í sumar fóru fram úr björtustu spám stærstu flugfélaganna.

Giovanni Bisignani, forstjóri IATA, varaði þó við of mikilli bjartsýni á blaðamannafundi í morgun. Hann sagði að tap flugfélaga á heimsvísu næmi hátt í 50 milljörðum dala sl. áratug og því væri enn langt í að flugiðnaðurinn næði sér að fullu.

Þá kom fram í skýrslu IATA að full ástæða væri til að hafa áhyggjur af evrópskum flugfélögum. Þannig gerir IATA ráð fyrir að evrópsk flugfélög tapi um 1,3 milljarði dala á árinu, sem er þó skárri spá en birt var í júní þegar gert var ráð fyrir 2,8 milljarða dala tapi flugfélaga í Evrópu. Sem fyrr eru það bandarísk og ekki síst asísk flugfélög sem viðrast halda iðnaðinum uppi.