Bjartsýni þýskra stjórnenda fyrirtækja minnkaði í september samkvæmt könnun sem gerð er mánaðarlega. Í frétt Bloomberg kemur fram að bjartsýnisvísitalan lækkaði úr 106,3 stigum í ágúst í 104,7 stig í september, en hagfræðingar höfðu gert ráð fyrir lækkun í 105,8 stig. Hefur bjartsýnisvísitalan ekki verið lægri síðan í apríl í fyrra.

Þýska hagkerfið skrapp saman á öðrum ársfjórðungi og hagvöxtur á evrusvæðinu var nær enginn á sama tíma. Óvissa í alþjóðamálum og hátt atvinnuleysi hefur einnig áhrif á bjartsýni stjórnendanna, samkvæmt frétt Bloomberg. Evrópski seðlabankinn sagði fyrr í mánuðinum að hann yrði virkari en áður í því að auka lausafé í hagkerfinu með skuldabréfakaupum.