Væntingavísitala Gallup lækkaði um tæp 13 stig eða 10,5% milli mælinga í júlí og mælist nú 108,5 stig. Hefur hún ekki mælst lægri í 22 mánuði. Síðast mældist svo mikil lækkun milli mánaða í apríl árið 2015, þegar vísitalan stóð í 84,5 stigum, en fyrir ári síðan stóð vísitalan í tæpum 125 stigum. Íslenskir neytendur telja þó að aðstæður í efnahags- og atvinnulífinu séu góðar, en að þær verði vart betri á næstunni.

Það sem af er þessu ári hafa væntingar neytenda dempast þó nokkuð, eða um tæp 11%. Frá því í júlí á síðasta ári nemur lækkunin á vísitölu Gallup rúmlega 13%. Hæst hefur gildi væntingavísitölunnar farið í 154,9 í maí árið 2007 og lægst í 19,5 í janúar árið 2009.

Vísitala Gallup, sem byggir á landlægri könnun, mælir tiltrú og væntingar neytenda til efnahagslífs, atvinnuástandsins og heildartekna. Sé vísitalan á tilteknum tíma 100 merkir það að það eru jafn margir jákvæðir og neikvæðir svarendur. Vísitölunni er ætlað að gefa vísbendingar um þróun einkaneyslu, en töluverð fylgni er á milli vísitölunnar og einkaneyslu, auk gengisþróunar krónunnar.

Tekjuháir Reykjavíkingar bjartsýnir

Þeir sem hafa hæstu tekjurnar og eru háskólamenntaðir, búsettir í Reykjavík og á aldrinum 45-54 ára eru jákvæðastir um daginn og veginn, samkvæmt könnun Gallup.

Á hinn bóginn eru þeir svartsýnastir sem hafa lægstu tekjurnar, grunnskólapróf og viðbótarmenntun, búa á landsbyggðinni og eru á aldrinum 55-80 ára. Karlar eru almennt bjartsýnni um stöðu mála og framhaldið heldur en konur.

2009-stemning?

Allar undirvísitölur væntingavísitölunnar lækka milli mánaða, en þó mismikið. Athygli vekur að þær byrjuðu að lækka á þessu ári í mars, þegar gjaldeyrishöftin voru afnumin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .