Bjartsýni gætir á evrópskum mörkuðum i í dag þrátt fyrir að titringur á fjármálamörkuðum heyri ekki sögunni til. Í Lundúnum hefur FTSE-vístialan í hækkað um 0,38%, DAX-vísitalan í Frankfurt í Þýskalandi hefur hækkað um 0,47% og CAC 40-vísitalan í París í Frakklandi um 0,44%. Sömu sögu er að segja af bæði bandarískum vísitölum í gær og asískum í morgun.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian segir að skýringuna megi finna að hluta í því að Evrópusambandið samþykkt annan björgunarpakka fyrir Grikki auk þess sem jákvæð niðurstaða úr álagsprófi á bandaríska banka hafi skilað sér í uppsveiflu á mörkuðum. Þó eru ýmsir viðvarandi áhættuþættir enn til staðar og skemmst að minnast stöðunnar á Spáni, í Ítalíu og Portúgal þar sem enn er glímt við eftirskjálfta fjármálakreppunnar.

Þá styttist í kosningar á Grikklandi sem búist er við að fari fram í lok apríl eða byrjun maí. Samkvæmt skoðanakönnunum mun enginn flokkur vinna hreinan meirihluta og er því búist við samsteypustjórn. Það getur leitt til þess að erfiðari verði að ná samstöðu um niðurskurðaraðgerðir.

Samkvæmt minnisblaði sem fréttastofa Reuters hefur undir höndum og birti í gær þurfa Grikkir að skera niður í ríkisútgjöldum sem jafngildi um 5,5% landsframleiðslu. Grikkir hafa enn ekki skýrt frá því hvar og hvernig þeir hyggjast ná þessum niðurskurði.

Þrátt fyrir jákvæða stöðu á mörkuðum í dag virðist því þó sem að mörgu þurfi að huga á komandi mánuðum.