*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 31. mars 2015 10:57

Bjartsýni stjórnenda fer minnkandi

Stjórnendur búast við að gengi krónunnar veikist á næstunni og stýrivextir Seðlabankans hækki.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Mun fleiri stjórnendur telja að núverandi aðstæður í atvinnulífinu séu góðar en að þær séu slæmar, en flestir telja þær hvorki góðar né slæmar. Væntingar um að þær fari batnandi eru minni en áður. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Capacent á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins, sem gerð var fyrr í mánuðinum fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabanka Íslands.

Einnig kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að fjárfestingar aukist meira á árinu en undanfarin ár. Að jafnaði vænti stjórnendur 3,0% verðbólgu næstu tvö árin en aðeins 1,2% hækkun á vörum og þjónustu eigin fyrirtækja næstu sex mánuði. Stjórnendur búast við að gengi krónunnar veikist um 2% á næstu tólf mánuðum og að stýrivextir Seðlabankans hækki.

Búast við auknum hagnaði og aukinni framlegð

40% stjórnenda búast við að hagnaður, sem hlutfall af veltu, verði meiri á þessu ári en árið 2014, helmingur að hann verði óbreyttur en rúmlega 10% að hann verði minni. Hlutfall þeirra sem telja að hagnaður aukist hefur hækkað töluvert frá síðustu könnun.

Væntingar stjórnenda um framlegð, EBITDA, næstu sex mánuði eru svipaðar og um hagnað á árinu. Þannig búast 40% við því að framlegð aukist, helmingur að hún standi í stað og rúm 10% að hún minnki. Framlegð hefur aukist á síðustu sex mánuðum að mati stjórnendanna.

Nánar má lesa um niðurstöður könnunarinnar hér.