Bjartsýni um fjármögnun fjármálafyrirtækja og um sterkari jólasölu en spáð hafði verið varð til þess að hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum í dag, að því er segir í frétt WSJ. S&P 500 vísitalan hækkaði um 0,9%, Nasdaq hækkaði um 0,8% og Dow Jones um 0,7%.

Fjárfestingarbankinn Merrill Lynch, sem er meðal þeirra sem hafa farið hvað verst út úr undirmálslánakrísunni, sagði fyrr í dag að hann hefði gert samkomulag við Temasek Holdings í Singapúr og Davis Selected Advisors um nýtt fjármagn. Aðrir stórir bankar, svo sem Citigroup og UBS, höfðu áður náð í fjármagn frá opinberum fjárfestingarsjóðum frá Mið-Austurlöndum og Asíu, að því er fram kemur í WSJ.

Hlutabréf í Merrill Lynch hækkuðu við fréttirnar en orðrómur um að bankinn væri að selja nýju hlutina á um eða yfir 10% afslætti varð til þess að hann lækkaði um 3% í dag. Aðrir bankar sem höfðu hækkað framan af degi héldu í hækkunina. Citigroup hækkaði til dæmis um 2,5% og J.P. Morgan Chase um 1,6%.