Sérfræðingar á þýska hlutabréfamarkaðnum eru bjartsýnir um þróun hlutabréfaverðs á næsta ári, en horfa til bandaríska hagkerfisins og undirmálslánakrísunnar sem ráðandi þátta. Þeir búast við því að síðustu dagar ársins verði rólegir á hlutabréfamarkaði, að því er segir í frétt Financial Times Deutschland.

Beðið er hagvísa frá Bandaríkjunum á fimmtudag og föstudag í þessari viku, væntingavísitölunnar og veltu á fasteignamarkaði, en vaxtarhorfur í Bandaríkjunum ráða miklu um hagkerfi heimsins á næsta ári og þar með um gengi hlutabréfa. Stærsta áhættan er fólgin í því hvort að undirmálslánakrísan breiðist út, því að þá kynnu hlutabréfavísitölur víða um heim að falla, að því er segir í FTD.

Líkur á bata í Bandaríkjunum á seinni hluta næsta árs

Gertrud Traud, hagfræðingur hjá Helaba bankanum í Þýskalandi, sem FTD ræðir við, segir að sá möguleiki sé fyrir hendi að bandaríska hagkerfið sé á leið inn í kreppu. Líkurnar á því að hagkerfið nái sér á seinni helmingi ársins 2008 séu hins vegar mun meiri. „Þar sem hlutabréfamarkaðurinn bregst yfirleitt við um sex mánuðum á undan hagsveiflunni, ætti hlutabréfaverð að fara að hækka á næstunni,“ segir hún.

Búist við 6% hækkun þýskra hlutabréfa

Þýska hlutabréfavísitalan DAX stendur nú í um 8.000 stigum og hefur hækkað um 20% á árinu. FTD segir að meðalspá fyrir vísitöluna í árslok 2008 sé 8.500 stig, sem er um 6% hækkun frá því sem nú er.

Hagfræðingar telja að þýska hagkerfið muni njóta góðs af áframhaldandi góðæri hávaxtarlanda, umfram allt Kína. Haft er eftir hagfræðingi Citigroup í Þýskalandi að hávaxtarlöndin geti dregið úr neikvæðum áhrifum af erfiðleikum í bandaríska hagkerfinu. Þá horfa hagfræðingar jákvæðum augum til aukinnar einkaneyslu í Þýskalandi, en hún hefur á liðnum árum verið Akkilesarhæll þýska hagkerfisins.