Viðmælendur Viðskiptablaðsins á markaði segja að það lýti út fyrir að einhver stór aðili sé að kaupa sig inn á markaðinn og þá sérstaklega viljað kaupa bréf í Símanum en einnig lá töluverð eftirspurn eftir bréfum frá Icelandair fyrir þegar markaðir opnuðu í morgun.

Eins Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur markaðurinn tekið kipp í morgun og hafa verið viðskipti með bréf Símans fyrir meira en milljarð, með Icelandair fyrir tæpan milljarð sem og með bréf Marel fyrir tæpan einn og hálfan milljarð.

Einn viðmælandinn segir að það líti út fyrir að „ferskir peningar“ séu að koma inn á markaðinn. Segir hann að aðilar virðist líta svo á að markaðurinn hafi verið undirverðlagður eftir miklar lækkanir í kjölfar afkomuviðvörunar Icelandair í þar seinustu viku.

Einnig hafi það haft jákvæð áhrif að Marel kom með sterkt uppgjör í síðustu viku. Stutt er í uppgjör Símans og virðist sem einhverjir aðilar á markaði séu bjartsýnir á það sem þar muni koma fram.