Samningaviðræður í bandaríska þinginu um að hækka skuldaþakið og hefja starfsemi ríkisins að nýju eru vel á veg komnar. Þetta fullyrðir aðstoðarmaður þingmanns í Öldungardeildinni í samtali við Reuters fréttastofuna.

Aðstoðarmaðurinn vildi ekki láta nafns síns getið. Hann segir að vísbendingar séu um að þegar samkomulagið er tilbúið geti þingið afgreitt frumvarp þess efnis á mjög skömmum tíma. Það þýðir að meðlimir Teboðshreyfingarinnar, eins og Ted Cruz, munu ekki leggja stein í götu þess.

Aðstoðarmaðurinn sagði einnig að stefnt væri að því að frumvarp væri afgreitt skjótt í fulltrúadeildinni en þar hefur Teboðshreyfingin reynst erfið viðureignar.